Karellen
Einkunnarorð Krakkaborgar: Hugur – Hjarta – Hönd

HUGMYNDAFRÆÐIN
Til að uppfylla sett markmið aðalnámskrár leikskóla, starfar leikskólinn Krakkaborg eftir Framfarastefnu heimspekingsins John Dewey. Hann segir að þroski barnsins stjórnist af tvennu: umhverfinu og meðfæddri þörf þess til þroska. Lögð er áhersla á að efla gagnrýna og skapandi hugsun sem kveikir áhuga og leiðir til skýrrar hugsunar. Hann vildi að börnin fengju tækifæri til að læra með því að rannsaka og framkvæma sjálf. Dewey lagði áherslu á að leikurinn væri frumafl í þroska barnsins og sú leið sem barnið notar til að læra. Í leik öðlast barnið reynslu af samskiptum sínum við önnur börn sem leiðir til frekari félagslegrar færni. Í Krakkaborg er lögð rík áhersla á leik barna og skapandi starf. Í aðalnámskrá leikskóla segir að leikurinn sé meginnámsleið barna og að hlutverk leikskólakennara sé að styðja við nám þeirra í gegnum leikinn. Meðal annars með því að skapa fjölbreytilegt leikumhverfi og veita aðgengi að leikefni sem hvetur börn til að rannsaka, finna lausnir og skapa.

Samfélag og lýðræði var ofarlega í huga Dewey og leit hann á skóla sem lýðræðislegt samfélag þar sem samvinna væri á milli ólíkra einstaklinga sem hafa ákveðið hlutverk. Með því væri fjölbreytileika fagnað í umhverfinu og virðing allsráðandi. Því lagði hann áherslu á að skapa lýðræðislegt umhverfi og fara milliveginn á milli þess að hafa algjört frelsi eða valboð.

Sjálfsstjórn og agi í skólastarfi samkvæmt Dewey ætti að snúast um að efla hæfni nemenda til sjálfsstjórnar þar sem þeir læri að taka tillit til og virða aðra. Hann taldi að eina raunverulega frelsið væri vitsmunafrelsið og að sjálfsstjórn og skynsemi væri grundvöllur þess að upplifa frelsi. Frelsi einstaklingsins gæti aldrei gengið það langt að það skerði frelsi annarra.

Hlutverk kennara, að mati Dewey, felst meðal annars í því að vera jafningi nemenda og hluti af hópnum, kveikja áhuga þeirra og hvetja þá til að rannsaka sjálfir viðfangsefni sín meðal annars með því að spyrja þá opinna spurninga eins og hvað, hvernig og hvers vegna. Kennari ber einnig ábyrgð á samskiptum innan nemendahópsins, að skapa góðan samskiptaanda og standa vörð um að ekki sé brotið á rétti nemenda í samskiptum þeirra við félaga sína. Hann skal vera þeim góð fyrirmynd, leiðbeina þeim í samskiptum við aðra og höfða til skynsemi þeirra. Kennarinn skal leitast við að skapa lýðræðislegan anda innan nemendahópsins í takti við þroska nemenda.

GRUNNÞÆTTIR LEIKSKÓLA
Hugtakið grunnþættir menntunar eiga sér stoð í alþjóðlegu samfélagi menntamála og við gerð gildandi aðalnámskrár mennta- og menningarmálaráðuneytis voru settir fram sex grunnþættir sem eiga að endurspeglast í skipulagi og inntaki skólastarfsins, í víðu sem smáu samhengi. Grunnþættir menntunar eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Í Aðalnámskrá 9 leikskóla eru grunnþættir menntunar nánar útfærðir í námssviðum sem tilheyra leikskólastarfinu.

Læsi og samskipti

Í Aðalnámskrá leikskóla segir að læsi í leikskóla feli í sér þekkingu, leikni og hæfni barna til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á margvíslegan máta (Aðalnámskrá leikskóla, 2011). Læsi er því félagslegt og felst í samskiptum svo sem að spyrja spurninga, rökræða og tjá líðan og tilfinningar. Í Krakkaborg birtist læsi í öllu leikskólastarfinu. Umhverfið er haft hvetjandi og ritmál sýnilegt. Nemendur hafa gott svigrúm til að prófa sig áfram og bæta í reynslubankann. Þau fá fjölbreytt tækifæri til tjáningar til dæmis í gegnum söng, látbragð, listsköpun og samræður en fyrst og fremst í gegnum leikinn. Nemendur Krakkaborgar læra undirstöðuatriði góðra samskipta svo sem að hlusta, sýna tillitssemi og þolinmæði.

Heilbrigði og vellíðan

Andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan nemenda og starfsfólks skiptir miklu máli. Í skólastarfi Krakkaborgar er leitast við að efla samspil þessara þátta með það að markmiði að heilbrigði og vellíðan nemenda og starfsmanna sé að leiðarljósi. Hlutverk starfsmanna er að efla jákvæða sjálfsmynd, sjálfstæði og styrkleika nemenda svo þau þrói með sér jákvæða og markvissa sýn á eigið heilbrigði. Skólaumhverfi Krakkaborgar á að stuðla að heilbrigðum lífsháttum, svo sem hollu mataræði, góðri hvíld og nauðsynlegri hreyfingu bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Einnig er mikilvægt að stuðla að lausnamiðuðu andrúmslofti, heilbrigðum samskiptum og jákvæðum skólabrag.

Sjálfbærni og vísindi

Umhverfið og náttúran er börnum dýrmætur kennari og í raun óþrjótandi brunnur uppgötvana, náms og reynslu. Náttúran og samfélagið eru samofin fyrirbæri og hlutverk kennara er að efla virðingu og skilning nemenda á náttúrunni, efla rýmisgreind og veita nemendum tækifæri á að átta sig á stærra samhengi hlutanna. Að athafnir þeirra í náttúrunni verði þeim merkingarbærar sem dæmi með því að fylgjast með brauði rotna, verða að mold sem þá verður jarðvegur fyrir næsta lífríki, eða að fylgjast með vatni renna eftir halla eftir eðlislögmáli og þyngdarafli. Mikilvægt er að nemendur læri að þekkja tengingu vísindalegra og tæknilegra þátta við náttúruna.

Lýðræði, mannréttindi og jafnrétti

Í Krakkaborg er lögð áhersla á gildi og starfshætti sem renna stoðum undir lýðræðislegt og réttlátt samfélag þar sem foreldrar, kennarar og nemendur eru samstarfsaðilar. Náms- og leikefni er fjölbreytt og kennarar gæta þess að allir nemendur fái jafnan aðgang að því. Í daglegu starfi leikskólans er lögð áhersla á að nemendur læri að bera virðingu og umhyggju fyrir öðru fólki, þrói með sér samkennd, tillitssemi, umburðarlyndi og vináttu. Frumkvæði nemenda er eflt svo þeir verði hæfari til að takast á við líf og starf í lýðræðissamfélagi. Nemendur eru hvattir til að taka þátt í ákvörðunum sem varða líf þeirra og leik eftir því sem aldur og þroski leyfir. Dewey lagði áherslu á að efla gagnrýna og skapandi hugsun til að kveikja áhuga. Hann vildi að nemendur fengju tækifæri til að læra með því að rannsaka og framkvæma sjálfir. Í Krakkaborg fá nemendur þessi tækifæri, fá að gera sem mest sjálfir, fá kost á að læra að leysa deilur á jákvæðan hátt, gleðjast með öðrum, og lifa í sátt við sig og umhverfi sitt. Réttur allra er virtur óháð kynferði, bakgrunni, aðstæðum eða getu. Nemendur fá að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri og lögð er áhersla á að þær séu virtar og jafnframt að þau virði skoðanir annarra. Rödd nemenda, skoðanir og vilji er því sýnilegur í daglegu starfi leikskólans. Með því læra nemendur um gildi lýðræðis og þess að vera þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru skýr ákvæði um að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Áherslu ber að leggja á að drengir og stúlkur eigi sem víðtækasta og jafnasta möguleika. Hvergi í skólastarfinu, í inntaki né starfsháttum, ættu að vera hindranir í vegi hvors kynsins. Í þessu skyni er eðlilegt að nýta sér í skólastarfinu þekkingu sem nýjar fræðigreinar, svo sem kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði hafa vakið athygli á.

Sköpun og menning

Segja má að orðið sköpun sé hugtak eða skilgreining á hugsun og athöfn þar sem nýtt sprettur frá því sem áður var. Sköpun og menning eru órjúfanlegir þættir og ekkert samfélag manna er án menningar og menningararfs. Í leik felst mikill sköpunarkraftur því börnin eru stanslaust að gera tilraunir (í samskiptum og athöfnum), gera eitthvað nýtt, framkvæma af forvitni, frumleika og þá feta nýjar slóðir. Hugverkið sköpun finnum við allsstaðar, hvort sem um er að ræða járnsmið sem leitar lausna við að smíða stiga milli hæða, verkfræðing sem finnur leiðir til að nota þörunga til að auka nyt í kúm eða listamann sem gerir furðulega hluti sem vekja mann af svefni vanans. Hlutverk kennarans er að veita nemendum ríkulegan efnivið og aðstoð og leyfa þeim síðan að vera þau sjálf svo þau beiti eigin hugsun og reyni á ímyndunaraflið. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og að hugmyndir þeirra fái að njóta sín. Mikilvægt er að nemendur fái að handfjatla og læra á margs konar verkfæri í þeim tilgangi að öðlast smátt og smátt færni og reynslu í beitingu þeirra. Í list- og verkgreinakennslu hér í Krakkaborg er litið á orðið verkfæri sem samheiti yfir svo margt sem viðkemur þessu starfi, í okkar augum eru bæði blýantur og handsög verkfæri ekki síður en skæri, pensill, saumavél og töng.

LEIKUR OG NÁM

Leikur er meginnámsleið barna og eðlilegt tjáningarform þeirra. Leikurinn er þeim eðlislægur og þau máta sig í ýmiss konar hlutverkum, efla félagslega færni og vinna úr reynslu. Leikur er sjálfsprottinn úr hugarheimi þeirra og þar fá þau útrás fyrir tilfinningar og hugmyndaflug fær að njóta sín. Í leik lenda börn í átökum og fá tækifæri til að leysa deilur og læra að setja sig í spor annarra (Aðalnámskrá leikskóla, 2011) Nemendur byggja leik sinn á eigin raunveruleika og geta gert marga hluti sem þeir geta ekki framkvæmt í raun og veru. Í Krakkaborg er lögð áhersla á fjölbreytilegt námsumhverfi og að nemendur fái góðan samfelldan tíma til leiks bæði úti við sem og inni. Starfsfólk leikskólans tengir markmið námsins við leik nemenda með markvissum hætti og fjölbreyttum nálgunum. Kennarar veita hugmyndum nemenda sinna áhuga og byggja starfið út frá áhugasviði þeirra.

DAGLEGT LÍF

Mikilvægt er að taka vel á móti nemendum þegar þeir koma í leikskólann. Heilsa þeim með nafni og horfa í augu þeirra svo þeir finni að þeir séu velkomnir í leikskólann sinn. Að sama skapi er kvatt hlýlega í dagslok og þakkað fyrir daginn. Dagskipulagið myndar ramma utan um allt starf leikskólans og skapar festu og öryggi fyrir nemendur leikskólans. Dagskipulag hverrar deildar fyrir sig endurspeglar áherslur aðalnámskrár leikskóla þar sem viðfangsefnin eru útfærð með tilliti til aldurs, þroska og samsetningu nemendahópsins. Hópastarf og samverustundir eru reglulega í leikskólastarfinu. Þar er áhersla lögð á lestur, söng, framsögn, umræður, hlustun ásamt öðru. Matmálstímar eru samverustundir barna og fullorðinna og hluti af námi í leikskóla. Við reynum að skapa rólegt andrúmsloft í matartíma svo hann geti verið góður vettvangur umræðna. Gott er að nota hann til að fræða nemendur um hollustu og fjölbreytni í matargerð. Sjálfsbjargarviðleitni nemenda er efld og þeir hvattir til að skammta sér sjálfir, nota hnífapör og undirbúa matmálstímann. Nemendur eru einnig hvattir til að smakka allan mat en um leið er borin virðing fyrir matarsmekk þeirra. Góður svefn og hvíld er ein af grunnþörfum fólks og mikilvæg undirstaða þess að ná að þroskast og dafna. Hvíldartími á yngri deildunum miðar fyrst og fremst að aldri og þroska barnanna og er mjög einstaklingsbundinn. Í hvíld er leitast við að hafa notalegt umhverfi sem einkennist af hlýju og trausti. Mikilvægt nám fer fram í fataklefanum þar sem leitast er við að efla sjálfstæði nemenda og sjálfsbjörg. Nemendur eru aðstoðaðir eftir þörfum og þroska og mið tekið af hverjum einstaklingi fyrir sig. Útivera gegnir mikilvægu hlutverki í tengslum við hollustu og heilbrigði. Þar gefst nemendum tækifæri á að kanna náttúruna, leika sér frjálst og nýta sér umhverfið til ýmiss konar leikja. Þegar fer að vora færum við leikskólastarfið meira á útisvæðið og erum þá með skipulagt útinám í bland við frjálsan leik.

VIÐBÓTARKENNSLA

Viðbótarkennsla Krakkaborgar er til að styðja alla nemendur í að geta notið leikskóladvalar sinnar og að efla þroska þeirra. Þessi viðbótarkennsla er í samræmi við þær reglur um sérkennslu sem sveitarfélagið setur. Þeir nemendur sem þurfa á viðbótarkennslu að halda fara í vinnustundir en þar er farið í ýmsa skemmtilega leiki sem tengjast þeim námsþáttum sem verið er að efla hverju sinni. Nemendur sækja vinnustundir einstaklingslega og í hóp, bæði innan og utan deildar. Leikskólinn er búinn fjölbreyttum og örvandi efnivið sem notaður er í vinnustundum. Í sumum tilvikum þarf nemandi mikla örvun í ákveðnum þroskaþáttum og útbýr sérkennslustjóri einstaklingsnámskrá í samráði við deildarstjóra, ráðgjafa frá Skólaþjónustu Árnesþings, og foreldra sem mynda saman teymi utan um nemandann, eftir því sem við á.

MAT Á SKÓLASTARFI

Merki góðs leikskóla felast meðal annars í að leikskólinn sé í stöðugri þróun og að reglulega sé farið yfir stöðu mála. Í Krakkaborg er mat á skólastarfi með reglubundum hætti og á ábyrgð fræðslunefndar og leikskólastjóra.

Ytra mat

Ytra mat sveitarfélaga felur í sér að sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu og áætlanir um umbætur. Ytra mat menntamálaráðuneytis felur í sér að menntamálaráðuneytið annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum skv. 37. gr. og með sjálfstæðri gagnaöflun. Menntamálaráðuneyti gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir og skipuleggur einnig þátttöku í alþjóðlegum mennta- og samanburðarrannsóknum.

Innra mat

Innra mat skal byggja á fjölbreyttum gögnum sem taka mið af viðfangsefnum hverju sinni og skulu starfsfólk, foreldrar, börn og foreldraráð taka þátt í því eftir því sem við á. Virkt innra mat skal vera samofið annarri starfsemi leikskóla og skapa forsendur fyrir markvissri skoðun á árangri, leiðum að markmiðum og aukinni ábyrgð leikskóla á eigin starfi. Innra mat skal vera umbótamiðað og ná til allra helstu þátta skólastarfsins. Leikskólar skulu birta á vefsvæði sínu, eða með öðrum opinberum hætti, upplýsingar um framkvæmd innra mats, helstu niðurstöður og umbótaáætlun.

Viðhorfskönnun foreldra er lögð fyrir að vori ár hvert og er mikilvægur þáttur í því að meta gæði leikskólastarfsins. Foreldrum gefst einnig tækifæri til að skrifa sérstakar ábendingar og koma þannig á framfæri öðrum atriðum en þeim sem könnunin tekur til.

Starfsþróunarsamtal er reglubundið formlegt samtal leikskólastjóra og starfsmanns um frammistöðu og starfsþróun þess síðarnefnda. Markmið starfsþróunarsamtala er að líta yfir farinn veg og gefa starfsmanninum upplýsingar um það hvernig hann hefur staðið sig í þeim verkefnum sem tilheyra starfi hans, meta þörf fyrir þjálfun og endurmenntun, ræða væntingar starfsmannsins til starfsins og setja skýr markmið.

SAMSTARF HEIMILIS OG LEIKSKÓLA

Við upphaf skólagöngu er grunnurinn lagður að góðu samstarfi heimilis og leikskóla. Þátttaka fjölskyldunnar í leikskólastarfinu skiptir miklu máli og samstarfið þarf að byggja á gagnkvæmum skilningi og virðingu. Áhersla er lögð á að taka vel á móti nemendum jafnt sem foreldrum og kveðja á sama hátt. Foreldrar eru ávallt velkomnir í leikskólann og starfsfólk er til viðtals þegar og ef foreldrar þurfa á að halda.

Aðlögun

Aðlögun barna er misjöfn og fer eftir barninu sjálfu. Sum börn þurfa lengri tíma en önnur og nauðsynlegt er að gefa sér góðan tíma. Í leikskólanum Krakkaborg er stuðst við þátttökuaðlögun. Hún byggir á þeirri hugmynd að börn og foreldrar eru að læra að vera í leikskólanum. Nái að kynnast honum saman, en ekki að börnin séu að venjast því að vera aðskilin foreldrum sínum. Jafnframt að tími gefist fyrir leikskólakennara að kynnast barninu sem hluta af fjölskyldu og sem hluta af stærri barnahóp. Aðlögun er ákveðin og skipulögð í samráði við deildarstjóra/leikskólastjóra og foreldra.

Foreldrasamtöl

Foreldrasamtöl hafa þann megin tilgang að ræða um líðan og þroska nemandans. Í foreldrasamtölunum skiptast foreldrar og deildarstjóri og kennarar á upplýsingum um þarfir og áhugamál, styrkleika og hæfni nemandans. Í þessum samtölum fer deildarstjóri og eða kennarar yfir þau þroskamöt sem lögð hafa verið fyrir og í kjölfarið eru sameiginleg markmið sett um þroska og framfarir nemandans. Foreldrasamtöl eru alla jafna einu sinni á ári en foreldrar geta einnig alltaf beðið um samtal við leikskólastjóra eða deildarstjóra þegar þeir óska þess. Foreldrasamtöl fyrir elstu börn leikskólans eru hins vegar tvisvar sinnum á ári.

Foreldrafélag

Allir foreldrar barna við leikskólann Krakkaborg eru sjálfkrafa meðlimir í foreldrafélagi leikskólans og greiða ákveðið árgjald. Aðalfundur félagsins er haldinn í september ár hvert og eru allir foreldrar hvattir til að mæta og taka þátt í gefandi og skemmtilegu starfi. Markmið foreldrafélagsins eru að:

  • stuðla að fræðslu um uppeldismál, foreldrum og börnum til gagns og ánægju.
  • auka samstarf milli foreldra og starfsfólks.
  • stuðla að samstarfi við foreldrafélög grunnskólans ásamt starfsfólki leikskólans.

Foreldraráð

Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið og gefa umsagnir til leikskóla og fræðslunefndar. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfi. Kosið er í foreldraráð í september ár hvert, og eru kosnir þrír foreldrar til eins árs í senn. Leikskólastjóri fundar einu sinni á hvorri önn með foreldraráði.

Foreldrakynning

Kynningarfundur fyrir foreldra er haldinn í september ár hvert. Á þeim fundi er farið yfir áherslur næsta skólaárs, kynning á starfsfólki leikskólans, námsgagnakynning og skóladagatal og dagskipulag afhent. Foreldrum gefst tækifæri á að ræða við deildarstjóra, spjalla og skoða leikskólann.

UPPLÝSINGAFLÆÐI

Á heimasíðu leikskólans, í tölvupósti til foreldra og á facebook síðu leikskólans eru settar ýmsar tilkynningar til foreldra um það sem er á döfinni og það sem liðið er. Fyrir framan hverja deild eru upplýsingatöflur þar sem sjá má ýmsar upplýsingar um það sem fram fer í leikskólanum dag hvern og viðburði sem eru á næsta leyti.

SAMSTARF LEIKSKÓLA OG GRUNNSKÓLA

Samstarf á milli Krakkaborgar og Flóaskóla er mjög gott. Elstu nemendur leikskólans fara reglulega í heimsókn yfir skólaárið í Flóaskóla til að kynnast skólanum og því starfi sem þar fer fram. Eins kemur bekkur í heimsókn í leikskólann. Þetta miðar að því að brúa bilið á milli leik- og grunnskóla og að samfella í námi myndist á milli þessara tveggja skólastiga. Markmið með samstarfi:

  • að skapa samfellu í leik, námi og starfi nemenda frá leikskóla til grunnskóla.
  • að auðvelda nemendum flutning á milli skólastiga með markvissum undirbúningi, kynningu á húsnæði Flóaskóla, starfi og kennurum.
  • að kennarar Flóaskóla kynnist elstu nemendum Krakkaborgar, getu þeirra og hæfni.

Starfsfólk skólanna fundar reglulega til að tryggja að samstarfið gangi sem best og að settum markmiðum sé náð.

Skólanámskrá leikskólans er í stöðugri mótun okkur öllum til heilla og bóta.

Fyrir hönd starfsfólks leikskólans Krakkaborgar árið 2019

Guðbjörg Hólm Þorkelsdóttir

© 2016 - 2024 Karellen