Karellen

Læsisstefna Krakkaborgar 2019

Læsisstefna Krakkaborgar tekur mið af Mál- og læsisstefnu Flóahrepps, Læsi fyrir lífið, sem er vegvísir að öflugu og faglegu starfi skólanna og er unnin með það að leiðarljósi að allir nemendur skólanna nái góðri færni í lestri og læsi.

Læsi er einn af grunnþáttum menntunar og felur í sér talað mál, lestur, ritun og hlustun. Læsi í víðum skilningi er mikilvægur þáttur samskipta. Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni nemenda til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Stefnan fylgir markmiðum Aðalnámskrám leikskóla og grunnskóla. Næmiskeið máltöku hefst við fæðingu og stendur til u.þ.b. 12 ára aldurs þó svo að málþroski mótist alla ævi. Í leikskólum er lagður mikilvægur grunnur að þroska nemenda sem býr þau m.a. undir lestrarnám seinna meir. Það felur í sér ákveðna þekkingu og færni en líka viðhorf sem þróast í nánum tengslum við það mál- og læsis umhverfi sem börnum er búið heima fyrir og í leikskólanum. Mikilvægt er að lesið sé daglega fyrir börn, bæði heima og í leikskólanum. Í leikskólanum er unnið með alla þætti málsins, m.a. orðaforða, hljóðkerfisvitund, málvitund, tjáskipti, framburð, málskilning, hlustun og stafaþekkingu. Byggð er upp færni nemenda til að skilja og nota tungumálið.

Á Lóudeild eru yngstu nemendur leikskólans, 9 – 24 mánaða. Foreldrar og starfsfólk leikskólans eru í nánu samstarfi og vinna saman að því að efla málþroska barnsins. Kennarar leggja áherslu á að tala skýrt og greinilega og einfalda mál sitt ekki sérstaklega þó að nemendur séu ungir. Kennarar setja orð á athafnir og aðstæður, nefna hluti í umhverfinu og ræða við nemendur og hvetja þá til að tjá sig. Daglega eru samverustundir þar sem er sungið, lesið og farið í leiki. Bækur, spjaldsögur og loðtöflusögur eru notaðar til að efla málskilning og hlustun. Kennarar virkja nemendur í samskiptum, bæði í samverustundum og í leik. Lögð er áhersla á að skoða bækur með nemendum og lesa fyrir þá. Athygli nemenda er vakin á ýmsum atriðum í bókunum t.d. með því að benda á myndir og endurtaka orð og orðasambönd úr textanum. Kennarar spyrja opinna spurninga og hvetja nemendur til að vera með vangaveltur, endurtaka og herma eftir orðum og hljóðum. Eins færa kennarar fingurinn undir textanum til að ýta undir skilningi þeirra á fyrirbærinu texti og hvaða tilgangi hann hefur að þjóna.

Á Ugludeild eru nemendur 2ja - 4ra ára. Á Ugludeild er unnið með læsi m.a. með námsefninu Lubbi finnur málbein, þar sem nemendur læra íslensku málhljóðin á skemmtilegan hátt í gegnum lestur, hlustun, verkefni og leik. Mikil áhersla er lögð á fyrsta málhljóð í orði og unnið með það bæði sjónrænt, heyrnrænt og táknrænt. Daglega eru samverustundir þar sem lesnar eru sögur, sungið, farið með þulur og rímað. Kennarar spyrja opinna spurninga úr textanum, farið er í leiki og fleira. Eins hafa nemendur aðgang að fjölbreyttum bókum, skriffærum og pappír þegar þeir vilja. Þeir eru hvattir til að segja frá, segja sögur og málnotkun þeirra efld. Ritað mál og stafir eru sýnilegir á deildinni sem eykur áhuga þeirra á stöfum, málhljóðum og eykur sjónminni nemenda. Starfsfólk deildarinnar er góð fyrirmynd nemendanna í samskiptum, hvetja nemendur til samskipta, kenna þeim ný orð og aðstoða þau að nota orðin sín í samskiptum við aðra.

Á Krummadeild eru elstu nemendur leikskólans 4ra - 6 ára. Kennarar leggja áherslu á að tala skýrt og hvetja nemendur til að nota málið í öllum samskiptum. Daglega eru samverustundir þar sem er lesið, sungið og farið í málörvunarleiki. Í lestrarstundum er nemendahópnum skipt niður svo þeir njóti sín betur. Ýmsar leiðir og námsgögn eru notuð í málörvun. Kennarar vinna að því að efla hljóðkerfisvitund, málvitund og málskilning, auka orðaforða og orðaskilning, bæta setningarmyndun og framburð nemenda. Nemendur æfa hlustun og eflast í samskiptum og félagsfærni. Allt daglegt starf er nýtt til málörvunar: í fataklefanum, í gönguferðum, við matarborðið o.s.frv. Það er m.a. gert með því að finna hljóð fremst í orði, rím, andstæður og klappa atkvæði. Lögð er áhersla á að kenna nemendum að sýna bókum virðingu og fara vel með þær, t.d. með því að fletta rétt. Ritmál er haft sýnilegt og nöfn nemenda eru á skúffum þeirra, hólfum og stólum svo þeir læri að þekkja nafnið sitt. Einnig eru margvísleg tækifæri gefin til að auka áhuga á og æfa sig í ritun og stafaþekkingu, bæði við borðvinnu og í frjálsum leik.

Á öllum deildum er notað Tákn með tali til að styðja við máltöku nemenda. Tákn eru m.a. nýtt í tengslum við félagsfærni Bínu bálreiðu og hver nemandi á sitt tákn, upphafshljóð í nafninu sínu sem er táknað með hljóðatákni úr námsefninu Lubbi finnur málbein. Kennarar fylgjast með þroska nemenda á öllum deildum og framvindu læsis í víðum skilningi m.a. með TRAS og Hljóm 2. Unnið er eftir stefnu snemmtækrar íhlutunar og sérstaklega hugað að eflingu málþroska í samstarfi við foreldra. Til að góð almenn lestrarfærni náist er mjög mikilvægt að heimili og skólar vinni vel saman. Stuðningur heimavið skiptir sköpum svo hægt sé að ná góðum tökum á lestrarnáminu og til að ná þeirri lestrarfærni sem nauðsynleg er í daglegu lífi og til að stunda annað nám.

Fyrsta reynsla barns af lestri mótar hugmyndir þess um bækur, lestur og ritmál. Þegar lesið er fyrir barn eykst áhugi þess á lestri og hæfni til að læra að lesa.
© 2016 - 2023 Karellen