Karellen

Haustið 2019 varð leikskólinn Krakkaborg hluti af verkefninu Vinátta – fri for mobberi á vegum Barnaheilla. Allir starfsmenn leikskólans sátu námskeið og öðluðust réttindi til að kenna nemendum efni þess. Verkefnið byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og er unnið að fyrirbyggja einelti með því að efla góðan skólabrag með áherslu á góð samskipti og með jákvæði viðhorfi til allra í nemenda hópnum.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi fjögur grunngildi við vinnu og í samskiptum innan skólasamfélagsins. Hugmyndafræðin endurspeglast í eftirtöldum fjórum gildum:

Umburðarlyndi
Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.

Virðing
Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.

Umhyggja
Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki
Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Bangsinn Blær

Blær er táknmynd vináttunnar í verkefinu. Blæ fylgja litlir hjálparbangsar sem ætlaðir eru hverju barni sem tekur þátt í Vináttu. Blær og hjálparbangsarnir tákna traust og vináttu og er ætlað að minna börnin á að passa upp á aðra og að vera góður félagi allra. Öll börn á Krakkaborg fá einn bangsa að gjöf og verður hann ávallt geymdur í leikskólanum. Ekki verður heimilt að taka hann heim fyrr en barnið hættir í leikskólanum.

Taska með fræðsluefni

Um er að ræða tösku sem inniheldur efni fyrir nemendur og kennsluleiðbeiningar fyrir starfsfólk, auk efnis til að nota með foreldrum og starfsfólki. Hvatt er til samtala og leikja með börnum sem byggja á gildum verkefnisins; umhyggju, virðingu, umburðarlyndi og hugrekki. Gert er ráð fyrir fjölbreyttum vinnubrögðum, svo sem hlustun, umræðu og tjáningu í leik, jafnt úti sem inni. Í töskunni er bangsinn Blær, nuddprógramm, samræðuspjöld, klípusögur, sögubók, geisladiskur og tónlistarhefti og leiðbeiningar um notkun og fróðleikur fyrir starfsfólk. Jafnframt fylgir efninu litlir bangsar fyrir hvert það barn sem tekur þátt í verkefninu.

Lesa má meira um Vináttuverkefnið á heimasíðu Barnaheilla

© 2016 - 2023 Karellen