Mat á skólastarfi

Innra mat Krakkaborgar

Í reglugerð um mat og eftirlit í leikskólum frá 2009, segir í 3. grein: "Hver leikskóli skal með kerfisbundnu innra mati leggja mat á árangur og gæði skólastarfs. Innra mat skal byggja á fjölbreyttum gögnum sem taka mið af viðfangsefnum hverju sinni og skulu starfsfólk, foreldrar, börn og foreldraráð taka þátt í því eftir því sem við á.

Virkt innra mat skal vera samofið annarri starfsemi leikskóla og skapa forsendur fyrir markvissri skoðun á árangri, leiðum að markmiðum og aukinni ábyrgð leikskóla á eigin starfi. Innra mat skal vera umbótamiðað og ná til allra helstu þátta skólastarfsins. Leikskólar skulu birta á vefsvæði sínu, eða með öðrum opinberum hætti, upplýsingar um framkvæmd innra mats, helstu niðurstöður og umbótaáætlun.

Eftirfarandi matsaðferðir eru notaðar í leikskólanum Krakkaborg:

Foreldrakönnun: Er lögð fyrir foreldra leikskólabarna í marsmánuði ár hvert. Foreldrakönnunin er hönnuð og lögð fyrir af Skólapúlsinum. Könnunin er samræmd yfir allt landið og getur hver leikskóli skoðað stöðu sína bæði miðað við landsmeðaltal og stöðu leikskólans á fyrri árum.

Starfsþróunarsamtal: Eru tekin í febrúar en þá fara allir starfsmenn leikskólans í viðtal til leikskólastjóra. Ræða starfsmaður og stjórnandi um gagnkvæmar væntingar og kröfur, styrkleika og veikleika, starfsánægjuog líðan.

Einnig er rætt um starfsþróun hvers og eins.

Nemendamat: Þeir nemendur sem tilheyra þremur elstu árgöngum leikskólans meta skólastarfið ár hvert. Ýmsar leiðir eru viðhafðar við upplýsingaröflun, viðtöl þar sem notast er við opnar spurningar, teikningar og frásagnir nemenda.