Karellen

Í 18. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 er kveðið á um að hver leikskóli skuli meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs. Í 19.gr. laganna segir að sveitarfélögin eigi síðan að fylgja innra matinu eftir þannig að það leiði til umbóta í skólastarfi. Tilgangur með mati er að afla vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstaklingum og hópum gengur að ná settum markmiðum. Skólar skulu síðan gera grein fyrir viðmiðum námsmats í skólanámskrá þannig að nemendum, foreldrum og öllum starfsmönnum skóla sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar. Þannig aukum við gæði skólastarfsins og stuðlum að umbótum, tryggjum réttindi barna og þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum.

Mat á leikskólastarfi er með ýmsum hætti og skiptist í innra og ytra mat.

Innra matinu er ætlað að veita aðilum skólasamfélagsins og fræðsluyfirvöldum upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun. Innra mat fer fram daglega þar sem starfsfólk er sífellt að velta fyrir sér leiðum og aðferðum sem gagnast sem best í skólastarfinu. Deildarstjórafundir, deildafundir, skipulagsdagar og teymisfundir eru vettvangur starfsmanna til að gera mat og áætlanir. Með kerfisbundnu mati er greint hvað gengur vel og hvað miður og síðan teknar ákvarðanir um umbætur á grundvelli niðurstaðna. Lýðræðisleg vinnubrögð við innra mat þar sem tekið er tillit til sjónarmiða þeirra sem koma að leikskólastarfinu stuðla að auknum gæðum í starfinu. Þar eru leikskólakennarar, annað starfsfólk, foreldrar og börn mikilvægustu þátttakendurnir og mikilvægt að þeir fái tækifæri til að velta fyrir sér leikskólastarfinu og ræða sín á milli.

Starf skólans er metið reglulega allt árið. Stjórnendur, starfsfólk og foreldraráð meta skólastarfið m.a. út frá niðurstöðum innra mats. Stjórnendur og starfsfólk funda reglulega eins og þörf krefur til að meta niðurstöður innra mats og vinna í framhaldinu að tillögum til úrbóta fyrir einstaklinga og hópa eða benda öðrum á hvað má læra af góðum árangri skólans. Niðurstöður innra mats nýtum við til jákvæðrar þróunar.

Ytra mat er unnið á vegum sveitarfélagsins, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins eða annarra aðila. Í leikskólanum Krakkaborg er miðað við að spurningalistar í formi kannana séu sendir til foreldra árlega og þeir beðnir um að leggja mat á starfið. Ytra mat sem unnið er af Mennta og menningarmálaráðuneytinu er byggt á fjölbreyttum gögnum, m.a. innra mati skólans, heimsóknum í skóla og viðtölum.

Skólaárið 2015-2016

© 2016 - 2024 Karellen